Vinnustofur í skóla margbreytileikans

Skólaárið 2019‒2020 unnu kennarar Laugagerðisskóla að þróunarverkefni sem hlotið hefur heitið Vinnustofur í skóla margbreytileikans.

Laugargerðisskóli er fámennur samrekinn leik og grunnskóli þar sem samkennslueiningar eru 3 (leikskóli, yngra stig og eldra stig). Breidd í nemendahópi er mikill og einstaklingsmiðun lykillinn að námi barnanna, en um leið er mikilvægt að þjálfa þau í að vinna saman, þvert á árganga bæði í hópverkefnum og verkefnum sem þau velja sér sjálf. Erfitt er að halda úti öflugu valgreinastarfi en með því að innleiða vinnustofur næst að koma til móts við fjölbreyttan áhuga og þarfir nemenda.

Fyrirmyndir að verkefninu eru m.a. sóttar til Grunnskólans á Bakkafirði og Brúarásskóla.

Vinnustofurnar tengjast öllum grunnþáttum menntunar enda viðfangsefni þeirra fjölbreytt og hugsuð þannig að nemendur þjálfist í sem fjölbreytilegust viðfangsefnum sem þjálfa ólíka færni, þekkingu og hæfni. Í Aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á lýðræði og mikilvægi þess að nemendur séu virkir þátttakendur í því að móta skólagöngu sína, eftir áhuga þeirra og getu. Í námskránni er mikil áhersla lögð á lykilhæfni. Í henni felst meðal annars hæfni nemenda til þess að tjá sig, miðla þekkingu og flytja mál sitt, áræði til þess að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun, vinna sjálfstætt og í samstarfi við aðra og nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun. Til lykilhæfni telst einnig hæfni nemenda til þess að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu. Vinnustofunum í Laugargerðisskóla er ekki síst ætlað að gefa nemendum kost á að rækta þessa þætti.

Einnig má færa rök fyrir því að viðfangsefni þar sem nemendur taka aukna ábyrgð á námi sínu og vinna sjálfstætt að upplýsingaöflun og skapandi viðfangsefnum falli vel að ýmsum ákvæðum námskrár um grunnþætti í menntun.

Markmiðið með verkefninu/námskeiðinu:

Að innleiða vinnustofur á eldra stigi skólans og vinna markvisst að því á yngra stigi með áhugasviðsverkefnum nemenda. Nám og kennsla í vinnustofum þessum eflir sjálfstæði nemenda, möguleika til þess að vinna að ólíkum verkefnum á fjölbreyttan hátt.

Innihald verkefnisins/námskeiðsins:

Verkefnið hófst með námskeiði 4. september þar sem Ingvar Sigurgeirsson fjallaði um reynslu annarra skóla af svipuðum verkefnum, sjá glærur úr fyrirlestri hans hér.  Í framhaldi af því mótuðu kennarar hugmyndir um verkefni nemanda þar sem áhersla var lögð á sjálfstæð vinnubrögð og skapandi starf.