Viðburðasmiðja – áhugavert verkefni í Brekkubæjarskóla

Í Brekkubæjarskóla er um þessar mundir (september-október 2019) verið að vinna að mörgum áhugaverðum verkefnum, m.a. í svokölluðum smiðjum sem eru í boði einu sinni í viku, þrjá tíma í senn. Nemendur í 9.-10. bekk undirbúa ýmsa viðburði, svo sem dansleiki, spilakvöld, bingó, körfuboltamót, fjölskyldukaffi og spurningakeppni (Kahoot) svo fátt eitt sé nefnt. Skilyrði er að viðburðurinn komi sér vel fyrir samfélagið!

Einn hópur valdi að undirbúa að opna pylsuvagn og annar er að undirbúa flóttaleik (e. escape room). Margir viðburðanna eru skipulagðir fyrir ákveðna hópa, t.d. á að halda fótboltamót fyrir 4.-6. bekk og kvikmyndakvöld fyrir 1.-2. bekk, þar sem boðið verður upp á popp og Svala. Ágóði rennur oftar en ekki til góðs málefnis.

Áhersla er lögð á skipuleg vinnubrögð. Nemendur vinna í hópum og þurfa að gera verk- og kostnaðaráætlun, búa til kynningarefni og hrinda síðan áætlunum sínum í framkvæmd. Öllum gögnum er safnað í verkefnamöppu og námsmatið byggir á sjálfsmati og jafningjamati, auk mats kennara. Í viðræðum við nemendur kom fram að flestir nemendanna voru mjög sáttir við þessi verkefni.

Það heppnast ekki öll verkefni! Hópur var búinn að undirbúa viðburð sem hét „Hoppa í höfnina“. Þó búið væri að útvega flotgalla og annan búnað og auglýsa viðburðinn vel mætti enginn á þenna áhugaverða viðburð. Þeir einu sem fóru í sjóinn voru þeir sem voru í hópnum! Vitaskuld þurfti að ræða á fundi með kennurum hvers vegna uppátækið misheppnaðist!

Bingó í fullum gangi!

Viðburðasmiðjurnar eru tilraunaverkefni og þetta er í fyrsta sinn sem í þær er ráðist. „Við vissum ekkert út í hvað við vorum að fara,“ sögðu kennararnir, „og á tímabili fannst okkur við vera í hálfgerðu rugli með þetta. En það rættist svo sannarlega úr.“

Kennararnir í Brekkubæjarskóla leyfðu að hér væri birtar þær leiðbeiningar sem nemendur fá í hendur þegar verkefnið var sett af stað (sjá hér) og eyðublað fyrir vinnuskýrslu (sjá hér).

Viðburðarsmiðjan er skemmtilegt dæmi um samfélagsþjónustunám (e. service learning).

Myndirnar tók Hjörvar Gunnarsson, kennari í Brekkubæjarskóla.