Verkefni um kjarnorkuvána

Fyrir nokkrum árum gengust Samtök áhugafólks um skólaþróun fyrir ráðstefnu þar sem viðfangsefnið var hvort og hvernig eigi að fjalla í skólum um stóru málin, t.d. flóttamannavandann, loftslagsmálin, stríð, hryðjuverk, fátækt eða jafnréttismál (sjá hér: http://skolathroun.is/radstefnur/storu-malin-i-skolastofunni/). Ráðstefnan var ekki vel sótt – efnið virtist ekki vekja áhuga margra – og ég verð að viðurkenna að í heimsóknum mínum í skóla verða viðfangsefni af þessu tagi ekki oft á vegi mínum. Það eru þó helst loftslags- og umhverfismál sem eru á dagskrá. Það vakti því athygli mína þegar ég heimsótti Grunnskóla Borgarfjarðar nýlega (í nóvember 2019), að bæði á Kleppjárnsreykjum og Varmalandi höfðu unglingarnir verið að fjalla um kjarorkuvána. Þeir höfðu horft á Chernobyl þættina sem nýlega voru sýndir á Stöð 2 og í framhaldi af því fengist við fjölbreytt verkefni. Í boði voru ýmis rannsóknarverkefni, svo sem að lesa sér til um geislun með því að leita í dagblöðum, tímaritum og á netinu. Einnig að skrifa fréttaskýringar, búa til hlaðvörp, teikna myndir, setja sig í spor fólks (t.d. skrifa dagbækur þess), gera samanburð á kjarnorkuslysum, yrkja ljóð, flytja fyrirlestra, vinna með kort, setja upp tímalínur og gera teiknimyndir. Gefinn var kostur á skapandi vinnu, m.a. málun. Ég fékk leyfi til að birta þessa sterku mynd sem máluð er af nemanda (Isobel Líf Diaz) á Varmalandi. Í samræðum við nemendur kom skýrt fram að þetta efni hafði opnað augu þeirra og vakið þau til umhugsunar. Ein stúlkan sagði mér t.d. frá því að það hefði verið virkilega krefjandi að flytja fyrirlestur í sporum hjúkrunarfræðings eftir slysið. Rétt er að nefna að auk hugmynda um verkefni frá kennrum voru nemendur hvattir til að leita eigin leiða.

Nafn listamannsins sem málaði þessa mynd er Isobel Líf Diaz.