Veggjakrotsaðferðir

Veggjakrotsaðferðir (e. graffiti wall, graffiti board, graffiti writing) henta sérstaklega vel til að virkja alla nemendur. Þessar aðferðir eru til í mörgum afbrigðum og þær má nota á öllum skólastigum. Þær eiga það sameiginlegt að nemendur vinna í hópum, skrá hugmyndir eða svör við spurningum á blöð eða miða sem síðan eru fest á vegg til umræðu og frekari skoðunar. Séu hugmyndir nemenda skráðar á þennan hátt gefst eftirsóknarverður möguleiki á að raða þeim upp með ýmsum hætti eftir því hvernig umræðan þróast, t.d. í flokka eða forgangsröð. Einn af mörgum kostum þessarar aðferðar er að nemendur sjá ólík rök eða sjónarmið (en þurfa ekki að
muna þau öll).

Þess þarf að gæta að nemendur skrifi með stóru og skýru letri og áríðandi er að gefa þeim gott ráðrúm til að skrifa.

Gefin eru tvö dæmi um útfærslu þessarar aðferðar – en áréttað að möguleikar á að „leika sér með hana“ eru nánast óþrjótandi.

Fyrra dæmið er í stórum dráttum byggt á lýsingu á vefsetrinu Facing History and Ourselves  en það seinna er að hluta byggt á hugmyndum frá Lilju M. Jónsdóttur, lektor við Kennaradeild Háskóla Íslands.

Veggjakrotsaðferð 1 – allir skrifa á sama „vegginn“

Þessi aðferð byggist á því að nemendur skrifa á sama „vegginn“ – ekki ósvipað því og gert er þegar hugarkortsaðferðir eru notaðar. Kosturinn er einkum sá að nemendur tengja hugmyndir sínar saman.

Undirbúningur
Aðgangur að stórum vegg er nauðsynlegur þar sem margir nemendur geta skrifað í einu (því fleiri því betra). Hvort tveggja kemur til greina að skrifa á stórar arkir, t.d. umbúðapappir, eða notast við krítar- eða tússtöflu. Áríðandi er að hafa góða penna, helst í mörgum litum. Nemendur þurfa að skrifa það stórt að auðvelt sé að lesa textann úr fjarlægð. Best er að hver nemandi hafi sinn penna. Síðan eru ýmsir möguleikar á að
gera þetta með rafrænum hætti.

Fyrirmæli
Aðferðin er útskýrð fyrir nemendum. Í þeirri heimild sem hér er stuðst við er áhersla lögð á að nemendur ræði ekki saman meðan unnið er en að sjálfsögðu kemur til greina að nemendur vinni að þessu saman, t.d. í pörum. Nemendur mega hvort heldur sem er setja sín atriði fram sjálfstætt eða tengja þau svörum annarra. Tengingu má gjarnan sýna með örvum eða línum.

Nemendur byrja að skrifa
Nemendum er gefinn góður tími til að skrá sín atriði og þeir hvattir til að fylgjast vel með því sem sett er á vegginn. Verkefnið fer oft hægt af stað en kemst síðan oftast vel á skrið. Fylgjast þarf vel með skrifunum og meta hvenær nóg er komið.

Sameiginleg umræða
Í sameiginlegri umræðu koma yfirleitt fram fjölmörg atriði sem má ræða. Leggja má fyrir nemendur að taka umræðuna saman í nokkrar setningar. Einnig má velja tiltekin atriði til frekari umræðu, t.d. mismunandi afstöðu.

Veggjakrotsaðferð 2 – skrifað á laus spjöld eða miða

Í þessari aðferð skrifa nemendur atriði á miða eða spjöld sem síðan eru fest á vegg, t.d. með kennaratyggjói. Einnig er tilvalið að nota „post-it miða“. Kostur þessarar aðferðar er sveigjanleikinn, þ.e. hægt er að færa atriði til eftir því sem umræðan krefst. Þessi aðferð hentar sérstaklega vel til að ræða álitamál eða annað efni sem á sér margar hliðar. Byggt er á spurningum um tiltekið efni sem á að ræða og leita svara við. Hér er tekið dæmi til skýringar um samræður nemenda um notkun eigin snjallsíma í skólum.

Undirbúningur
Útvega þarf stórar pappírsarkir, kennaratyggjó, stóra minnismiða og góða tússpenna. Hafa þarf gott veggpláss og gott aðgengi að því.

Í upphafi er vinnuferlið sem stuðst er við útskýrt (sjá hér á eftir).

Spurningar afmarkaðar
Þær spurningar sem leita á svara við eru afmarkaðar. Dæmi: Hvað vitum við um notkun snjallsíma í námi? Hvaða kostir fylgja slíkri notkun? Hvaða gallar eða neikvæðar hliðar fylgja notkun snjallsíma? Hvaða möguleika sjáið þið?

Hópvinna
Nemendum er skipað í fjóra hópa (eða jafn marga hópa og spurningarnar eru sem glíma á við). Hver hópur fær stóra pappírsörk sem sett er á vegg á aðgengilegum stað í skólastofunni, minnismiða og penna. Gott er að hafa borð og stóla svo nemendur geti setið við skriftir. Hver hópur fær eina af þeim spurningum sem leita á svara við og skráir hana á örkina (efst, neðst, í horn eða miðju). Nemendur fá ákveðinn tíma til að skrá svör við spurningunni á minnismiðana og setja á örkina. Ákveða þarf hvort nemendur hafa samráð um hvað skrifað er, hvort hver og einn skrifar fyrir sig eða hvort nemendur vinna saman í pörum eða litlum hópum. Gefið er merki þegar nemendur eiga að hefjast handa og aftur þegar tíminn er útrunninn.

Hóparnir skipta um stað
Hóparnir færa sig sólarsinnis (eða eftir öðru kerfi) að næstu örk. Hvort tveggja kemur til greina að nemendur lesi fyrst það sem fyrir er eða að þeir geri það ekki. Sé fyrri kosturinn valinn kemur til greina að einn nemandi úr þeim hópi sem fyrir var „sitji eftir“ og útskýri þau atriði sem þegar eru komin á örkina. Nemendur hefjast handa við að bæta við atriðum og þegar tíminn er útrunninn og merki gefið færa þeir sig á næsta
stað og þannig koll af kolli uns allir hafa fengið að glíma við allar spurningar.

Úrvinnsla
Fjölmargir möguleikar koma til greina við úrvinnslu svaranna. Fela má hverjum hópi að gera grein fyrir lokaniðurstöðum (samantekt). Vinna má í hópum við að vega og meta þau atriði sem fram hafa komið og raða þeim eftir skyldleika (flokka) eða mikilvægi. Hægt er að færa arkirnar saman til frekari greiningar og umræðu. Styðjast má við spurningar eins og þessar:

  • Hvernig má flokka svörin?
  • Hvaða eitt, tvö eða þrjú atriði eru að ykkar dómi
    mikilvægust (hvers vegna)?
  • Hvaða atriðum eru þið sammála og hverjum eruð
    þið á móti (hvers vegna)?

Þessi aðferð hentar mjög vel til undirbúnings ritunarverkefnum af ýmsu tagi eða til rannsóknarvinnu þar sem frekari upplýsinga er aflað.