Í Húsaskóla í Reykjavík er áhugavert þróunarverkefni í gangi. Á þessu skólaári fá nemendur í 5.-7. bekk tækifæri til þess að taka þátt í þróunarverkefni sem kallast Val. Nemendur geta valið á milli námskeiða í listgreinum, verkgreinum, íþróttum og upplýsinga- og tæknimennt fjórum sinnum í viku, alls átta kennslustundir, tvær kennslustundir í senn. Í þessu Vali blandast nemendur miðstigs eftir áhuga nemenda á framboði hverju sinni. Valið nær til átta kennslustunda á viku þ.e. Skólaárið skiptist í fimm valtímabil, tvö fyrir áramót og þrjú eftir áramót. Á hverju valtímabili eru tvö valnámskeið í boði þ.e. Val A og Val B. Nemendur taka því alls 10 valnámskeið yfir skólaárið. Nemendur velja sér Val A og Val B á ca. sex vikna fresti á þar til gerð valblöð í samráði við foreldra sem þurfa að skrifa undir og samþykkja valið áður en því er skilað. Nemendur þurfa að velja íþróttir sem fyrsta val að a.m.k. einu sinni á skólaárinu í einhverri af þeim 10 valnámskeiðum sem í boði verða.
Dæmi um val sem er í boði á þessu skólaári er t.d. myndlist – grafísk hönnun, forritun, matreiðsla, íþróttir, eðlisvísindi og hönnun, skrautlist, skák og spilamenning, leiklist og leikir, fjarvídd, bakstur, prjón, þrykk, útsaumur, upplýsingatækni, þjóðsögur og hefðir, að búa til bangsa, leir og listasaga, málun og myndbygging og tónsmiðja. Markmið verkefnisins er að stuðla að auknum samskiptum nemenda milli árganga, að efla vinnugleði og gefa nemendum kost á að velja sér viðfangsefni og auka þannig lýðræði í skólastarfi. Námsmat í vali byggist á hæfniviðmiðum aðalnámskrár sem og frammistöðumati. Eins og áður hefur komið fram er hvert valtímabil blanda af tækniverkefnum, verklegri vinnu, hreyfingu og verkefnum sem fela í sér áskorun af einhverju tagi.
Kannanir sem gerðar hafa verið sýna fram á að á milli 90-98% nemenda og foreldra eru ánægðir með slíkt fyrirkomulag í skólastarfi. Vinnugleði, samskipti og þátttaka er einkennandi fyrir þessar kennslustundir sem hefur smitandi áhrif yfir í aðrar kennslustundir.
(Byggt á Starfsáætlun Húsaskóla 2019-2020)
Sjá einnig um val á miðstigi í grein eftir Jónu Benediktsdóttur í Skólaþráðum: