Þróunarverkefni í Stekkjaskóla

Að byggja upp lærdómssamfélag í nýjum
grunnskóla

 

Í Stekkjaskóla á Selfossi, sem er nýr grunnskóli og tekur til starfa haustið 2021, verður skólaárið 2021-2022 fengist við þróunarverkefni sem byggist á innleiðingu teymiskennslu. Til grundvallar verða lagðar hugmyndir um skólann sem lifandi lærdómssamfélag. Tveir eða fleiri kennarar munu vinna saman og bera sameiginlega ábyrgð á kennslu, námi, líðan og umsjón nemendahóps. Hvert teymi mun jafnframt velja sér umbótaverkefni sem það mun leggja sérstaka rækt við, tengt áherslum skólans, t.d. jákvæðum skólabrag, fjölbreyttum kennsluháttum, nýsköpun, skapandi skólastarfi eða umhverfismennt.

Verkefnið verður sett af stað föstudaginn 20. ágúst með dagskrá. Dr. Ingvar Sigurgeirsson skólaráðgjafi mun flytja erindi um sóknarfæri og áskoranir í teymiskennslu og kennarateymi úr skólum þar sem teymiskennsla hefur verið innleidd miðla reynslu sinni.

Skólastjóri Stekkjaskóla er Hilmar Björgvinsson.

Heimasíða Stekkjaskóla