Af litlum neista: Starfsþróunarverkefni í grunnskólunum í Árborg 2018-2019

Skólaárið 2018-2019 unnu kennarar í grunnskólunum í Árborg (Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Sunnulækjarskóla og Vallaskóla) að skólaþróunarverkefnum sem tengdust hugmyndinni um skólann sem lærdómssamfélag. Verkefnin sem skólarnir fengust við tengdust innleiðingu eða þróun teymiskennslu, leiðum til að bæta bekkjar- og skólabrag og efla foreldrasamstarf.

Verkefnið var sett af stað með málþingi / námskeiði í Sunnulækjarskóla föstudaginn 17. ágúst 2018.

Umsjónarmenn verkefnisins, prófessorarnir Anna Kristín Sigurðardóttir og Ingvar Sigurgeirsson stýrðu dagskrá þar sem meginviðfangsefni voru kynnt. Anna Kristín leiddi umræðu um skólann sem lifandi lærdómssamfélag og Ingvar fjallaði um reynsluna af innleiðingu teymiskennslu í skólum hér á landi, sóknarfæri og hindranir.

Í framhaldi af málþinginu völdu kennarar sér viðfangsefni til að þróa í samráði við stjórnendur skólanna og umsjónarmenn verkefnisins. Gefinn var kostur á að kalla fleiri aðila til ráðgjafar, t.d. sérfræðinga um hópefli, aga- og bekkjarstjórnun, hegðunarvandamál og leiðir í foreldrasamstarfi.

Annar áfangi í verkefninu var samráðsdagur sem haldinn var föstudaginn 16. nóvember 2018 í skólunum þremur. Sjá um þá dagskrá hér.

Þriðji áfangi var námskeiðsdagur sem haldinn var í Sunnulækjarskóla, 3. janúar 2019. Sjá um hann hér.

Fjórði áfangi verkefnisins var í Vallaskóla miðvikudaginn 6. mars 2019 (á öskudaginn). 

Verkefnið var að ræða hvernig miðað hefði í verkefninu, leggja drög að því hvernig verkefninu yrði lokið á skólaárinu og leggja línur fyrir næsta ár.

Í byrjun fór Ingvar Sigurgeirsson nokkrum orðum um stöðuna og tengdi við vinnuna frá því í nóvember og janúar: Glærur Ingvars.

Í framhaldi af framlagi Ingvars var unnið í hópum við að svara eftirfarandi spurningum:

 • Hefur okkur miðað áfram? Hverju hefur vinnan í skólunum skilað? En námskeiðin 3. janúar?
 • Hverjar eru nú helstu áskoranir?
 • Hvaða sóknarfæri sjáið þið nú?
 • Er hægt að tengja vinnu okkar við menntastefnu Árborgar? Sjá hér.
 • Hverjar eru óskir ykkar varðandi verkefnið (bjargir, stuðningur, fræðsla, annað)?
 • Hvað ætlið þið að gera í tengslum við verkefnið á næstu mánuðum (t.d. fram að páskum)? Hvernig viljið þið sjá starfið þróast næsta skólaár?

Umræðan fór fyrst fram í hópum þvert á skóla – en síðan hittust kennarar úr hverjum skóla. Markmiðið var að í dagslok vissu allir hvað þeir ætluðu að gera í framhaldinu!

Niðurstöður hópvinnunnar voru þessar:

 • Almennar niðurstöður
  • Gefa þarf þróunarverkefninu meiri tíma.
   • Minnkum kennsluskyldu til að skapa aukið svigrúm fyrir þróunarstarf.
  • Virkja verkefnisstjóra – stýrihópa.
  • Óskir eftir meira samstarfi skólanna í sveitarfélaginu. Til dæmis gætu kennarar hvers stigs hist og skipulagt samstarf, viðburði eða verkefni. Eins aukin samskipti nemenda þvert á skóla.
  • Bent var á að vinnan væri í góðu samræmi við hugmyndina um skóla fyrir alla sem og hugmyndafræðina um skólann sem lærdómssamfélag.
  • Jákvæð viðhorf komu fram gagnvart megináherslum í menntastefnu sveitarfélagsins.
  • Nokkrir hópanna óskuðu eftir betri stýringu á vinnunni – meiri eftirfylgni.
  • Komið verði á fót sameiginlegum gagnagrunni – hugmyndabanka.
  • Aukin áhersla á vinnu með nærsamfélaginu.
  • Minna alla á að upplýsingar um niðurstöður hópumræðna í þessu verkefni er að finna á skolastofan.is
  • Stofna hugmyndahóp á Facebook þar sem hugmyndum er miðlað.
 • Niðurstöður umræðna um foreldrasamstarf
 • Um samskipti og bekkjarbrag
 • Um teymiskennslu
 • Niðurstöður úr umræðum í skólahópum:

Fimmti og síðasti áfangi verkefnisins var dagskrá og menntabúðir í BES föstudaginn 7. júní:

Dagskrá:

9:00 -10:00

Umvefjandi skólasamfélag

Kristín Björk  Jóhannsdóttir, deildarstjóri í Sunnulækjarskóla: Sameiginleg sýn sem mótar heildræna nálgun

Teymiskennsla á unglingastigi í Vallaskóla

10:00-11:30 og  11:30-12:00

Menntabúðir og dagskrá Spilavina

12:00-13:00

Guðbjartur Ólason og Hrund Harðardóttir: Stöðumatið, kynning

Að dagskrá lokinni héldu stjórnendur skólanna matsfund þar sem lagt var mat á hvernig til hefði tekist við verkefnið. Niðurstöður eru hér.


Efnt var til samkeppni um nafn á verkefnið og fékk það heitið Af litlum neista. Hugmyndina átti Anna Linda Sigurðardóttir kennari í Vallaskóla.


Drög að tímaáætlun fyrir verkefnið

Tímabil 2018/2019 Viðfangsefni/viðburður Staður
Ágúst Upphaf – málstofa föstudaginn 17. ágúst, kl. 8.30-12.30 Sunnulækjarskóli
September Kennarar velja sér viðfangsefni
Október / nóvember 16. nóvember: Þrjár málstofur þvert á skóla um þau viðfangsefni sem kennarar í hverjum skóla velja (bekkjarstjórnun, foreldrasamstarf, teymiskennsla). Kennarar vinna að þróun verkefnisins. Hér má sjá fyrstu hugmyndir að viðfangsefnum og áherslum
Nóvember Ráðgjafar heimsækja skólana – fyrirlestrar, handleiðsla (ákveðið í samstarfi við hvern skóla)
Desember Vinna í hverjum skóla
Janúar 2019 Námskeið 3. janúar – í framhaldi af því vinna í hverjum skóla Í öllum skólunum
Febrúar Vinna í hverjum skóla
Mars Málstofur þvert á skóla (í Vallaskóla, 6. mars)Vinna í hverjum skóla
Apríl Ráðgjafar heimsækja skólana – dagskrá ákveðin í samráði við kennara og stjórnendurVinna í hverjum skóla
Maí Vinna í hverjum skóla
Júní Uppskeruhátið