Starfsmenn

Ingvar Sigurgeirsson er kennslufræðingur að mennt. Hann lauk kennaraprófi 1970 frá Kennaraskóla Íslands, meistaragráðu frá Sussex-háskóla 1986 og doktorsprófi frá sama skóla 1992. Ingvar var prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands. Hann hefur langa reynslu af ráðgjöf við skóla, sveitarfélög og stofnanir, m.a. um stefnumótun, skólaumbótaverkefni, símenntun, námskrárgerð og ráðningarmál. Á síðustu árum hefur hann verið ráðgefandi um innleiðingu teymiskennslu í mörgum skólum. Ingvar hefur leiðbeint um nám og kennslu á öllum skólastigum, sem og í fullorðinsfræðslu og fengist við rannsóknir á skólastarfi.

Ingvar hefur skrifað fjölda bóka, bókarkafla, tímaritsgreina, og skýrslna, auk vefefnis um sérsvið sín, m.a. kennsluhætti og kennsluaðferðir, einstaklingsmiðað skólastarf, skólaþróun, námskrár- og námsefnisgerð, nýbreytni og þróunarstarf, námsmat og mat á skólastarfi.

Lilja M. Jónsdóttir er fv. lektor í kennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er almenn kennslufræði og kennslufræði samfélagsgreina. Lilja var grunnskólakennari við Æfingaskóla Kennararháskóla Íslands (nú Háteigsskóli) frá 1978 til 2003. Lilja hefur lagt áherslu á fjölbreytt og sveigjanlegt skólastarf þar sem lýðræði í skólastarfi, samkomulagsnám, samþætting námsgreina, þemanám, skapandi starf og einstaklingsmiðað nám og kennsla hafa verið í fyrirrúmi. Þá hefur hún langa reynslu af námskeiðahaldi fyrir kennara, ásamt ráðgjöf við þróunarverkefni í einstökum skólum. Auk þessa hefur hún skrifað bækur m.a. um kennslufræði og kennsluleiðbeiningar með námsefni í samfélagsfærði og lífsleikni.

Lilja lauk meistaranámi frá University of Toronto/OISE 1995 og doktorsnámi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands 2013. Viðfangsefni doktorsrannsóknar hennar var gengi og líðan kennara fyrstu fimm árin í grunnskólakennslu. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skapa þekkingu sem varpaði ljósi á hvernig þeir náðu tökum á starfi sínu og hvernig þeir þróuðust sem byrjendur; hvað hindraði og hvað studdi þá. Annað markmið var að athuga hvers konar leiðsögn nýliðar í kennslu þurfa á að halda fyrstu árin í kennslu. Meðal annarra rannsókna Lilju eru um viðhorf byrjenda í grunnskólakennslu til kennarnáms síns, hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara og hugmyndir nemenda á unglingstigi um lýðræði og viðhorf þeirra til lýðræðis í skólastarfi.

Aðrir starfsmenn eru lausráðnir eftir verkefnum hverju sinni og er leitast við að ráða sérfræðinga á viðkomandi sviði.