Skipulagðar foreldraheimsóknir

Dæmi um skipulagðar foreldraheimsóknir er að finna í grein Lilju M. Jónsdóttur (2011) í Tímariti Heimilis og skóla:

Foreldrar dvelja heilan dag í skólastofunni
Foreldrar nemenda minna hafa alltaf verið velkomnir í heimsókn í skólastofuna en oft varð minna úr því en til stóð. Eitt haustið (í 6. bekk) kom fram sú hugmynd að foreldrar allra nemendanna dveldu heilan skóladag með barni sínu og færu í allar kennslustundir dagsins með því. Við völdum vikudag þar sem stundaskráin var fremur fjölbreytt, það er blanda af bekkjartímum og list- og verkgreinatímum. Foreldrar skráðu hvaða dag vetrarins þeir gátu mætt og var útbúinn heimsóknarlisti fyrir allan veturinn. Við kennararnir sáum um að minna foreldra á og hvetja þá sem ekki voru alveg ginnkeyptir fyrir þessari hugmynd. Fátt hefur komið mér eins ánægjulega á óvart og árangurinn af þessari annars einföldu hugmynd. Þarna fengu allir foreldrar mjög góða mynd af því hvernig einn skóladagur getur gengið fyrir sig, þar með taldar frímínútur og matartímar. Þeir áttuðu sig á hvað felst í því að kenna og sinna öllum þessum ólíku nemendum í einum bekk. Þessar heimsóknir voru mikið ræddar á heimilunum, ég fékk að heyra hvað hverjum og einum fannst áhugaverðast og þessi umræða skilaði sér margfalt til baka inn í bekkjarstarfið í jákvæðum viðhorfum, bæði barna of foreldra. (Lilja M. Jónsdóttir, 2011).

Ekki er víst að alltaf sé hægt að skipuleggja svo viðamiklar heimsóknir (heilan skóladag), en skemmri tími kemur að sjálfsögðu einnig til greina.

Lilja M. Jónsdóttir. (2011, maí). Farsælt foreldrasamstarf – hvað getur falist í því? Tímarit Heimilis og skóla, 10-11.