Skemmtileg hugmynd í tengslum við skólastefnu

Á fundi um aðgerðaáætlun í tengslum við nýja skólastefnu í Borgarbyggð 31. mars 2023 setti Sigfríður Björnsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar, fram áhugaverðar hugmyndir um leiðarljós og leiðir. Hún kenndi þetta við drauminn um sérstöðu Borgarbyggðar á grunni skólastefnu.

Leiðarljós:
  • Að öll börn og ungmenni í Borgarbyggð fái tækifæri með skipulögðum hætti til að upplifa og taka þátt í viðburðum á sviði lista, menningar.
  • Að þau öðlist þekkingu og færni til að njóta náttúru á fjölbreyttan hátt.
  • Að þau þekki sögu svæðisins og tengist umhverfinu og annist það með virkum hætti.
Leiðir:
  • Að boltinn um farsæld sem markmið menntunar verði gripinn og útfærður í héraði með öflugum hætti.
  • Að fagsamfélagið setji sig í samband við málsaðila og taki virkan þátt í móta mælikvarða þegar kemur að farsæld nemenda á öllum skólastigum og þætti kerfisins í að skapa hana í öflugu samstarfi við nemendur og foreldra.
  • Að sérstaða verði sköpuð á vettvangi mennta með tilliti til umhverfis og sögu svæðisins sem efli áhuga fólks hvaðanæva á því að tilheyra starfinu og taka þátt í því með börnum sínum.

Mótaður verði gátlisti sem tekur til þeirra atriða sem um ræðir og þess gætt innan hverrar stofnunar að uppfylla þau atriði. Rétt er að geta þess hver „viðburður“ eða atriði á listanum getur verið framkvæmdur í samhengi við hverja þá námsgrein eða áherslu í starfinu sem efst er á baugi hverju sinni. Um er að ræða athafnir sem eru samofnar faglegu starfi og styrkja það. Vandaður undirbúningur og frjó úrvinnsla tryggir djúpt samhengi við menntun barnsins sem hefur farsæld að markmiði.

Aðgerðalisti:

Allir nemendur sem gengið hafa í gegnum leikskóla og grunnskóla á svæðinu koma að því að yfirfara og móta þennan lista á hverju ári:

  • Hafa farið á skíði (svig, göngu,bretti) minnst þrisvar (það þarf ekki að fara langt – útbúa minni skíðasvæði?)
  • Hafa farið á skauta minnst þrisvar
  • Hafa vaðið ár og synt eða flotið í þeim minnst þrisvar (með búnaði s.s. skóm og hönskum)
  • Hafa farið í lengri göngur um heiðar eða á fjall minnst þrisvar
  • Hafa prófað opinn kajak í á eða skurðum
  • Hafa fengið kynningu á hellum svæðisins og farið að mynni minnst eins þeirra (eða inn í hann)
  • Hafa gengið á jökli minnst einu sinni
  • Hafa fengið kynningu á starfi björgunarsveita minnst tvisvar og kynnst búnaði þeirra
  • Hafa farið í sauðburð minnst tvisvar
  • Hafa farið í réttir minnst tvisvar (ath. Réttarfrí?)
  • Hafa prófað að fara á hestbak (ef þau vilja) –  tvisvar
  • Hafa farið í fjós minnst tvisvar (sjá kálfa og heygjöf o.frv.)
  • Hafa sótt Ullarselið og fengið fræðslu þar minnst tvisvar
  • Hafa farið í fræðsluheimsókn í Reykholt minnst þrisvar
  • Hafa farið í sögugöngur með leiðsögn – Íslendingasögur – minnst 2 sinnum
  • Þekkja kennileiti – ár, vötn, fjöll, fossa, jökla – og farið á vettvang þeirra minnst 5 sinnum
  • Hafa heimsótt og fengið kynningar frá minnst þremur fyrirtækjum sem starfa í héraði
  • Hafa tekið þátt í plokki og fleiru sem tengist umhyggju fyrir umhverfi
  • Hafa kynnst listamönnum af svæðinu minnst þrisvar – farið á vinnusvæði listamanna
  • Hafa fengið tækifæri til að fylgja eftir, gera oftar, það sem höfðar til þeirra af ofangreindu s.s. á „smiðjuhelgum“.
  • Hafi fengið ekki færri en 10 heimsóknir listamanna/listhópa í skóla
  • Hafi farið í minnst þrjár menningarferðir í stærri stofnanir þjóðarinnar – Harpa, Þjóðminjasafnið, Listasafn Íslands, Kjarvalsstaðir… o.s.frv.
  • Hafa hlýtt á tónleika í skólanum minnst 8 sinnum
  • Hafa sótt tónleika og leiksýningar utan skólans minnst 5 sinnum.
  • Hafa farið á skólatónleika í Hörpu minnst 1 sinni