Það verður æ betur ljóst hve miklu máli skiptir fyrir læsi og nám að nemendur hafi gott vald á máli. Ef orðaforði er slakur hefur það vítahringsáhrif – það verður erfitt að skilja lesefni og það dregur úr áhuga á lestri. Að sama skapi stuðlar gott vald á máli að skilningi og árangri í námi og áhuga á lestri. Þetta einskorðast ekki við íslensku og íslenskukennslu. Árangur í námsgreinum eins og stærðfræði, náttúrufræði og samfélagsfræði er háður valdi á hugtökum námsgreinanna og tungumáli þeirra. Til þess að læra og tjá sig um efni námssviða grunn- og framhaldsskóla þarf nemandi að skilja og ráða yfir viðeigandi orðaforða og orðræðu.
Orð af orði er hugmynda-, kennslu- og aðferðafræði sem hefur að markmiði að efla læsi og námsárangur grunnskólabarna. Lögð er áhersla á að efla málumhverfi, kenna markvissar aðferðir við að sundurgreina námsefni og orð, greina merkingu og inntak, tengsl við annað efni, kortleggja aðalatriði og endurbirta eða endurbyggja á fjölbreyttan og heildrænan hátt. Aðferðafræðin felur í sér margs konar kennsluaðferðir og kennsluhugmyndir.
Hægt er að efla orða- og hugtakaforða nemenda með markvissum hætti, beint og óbeint. Í kynningu 9. október verða kynntar fjölbreytilegar kennsluaðferðir úr Orði af orði kennslufræðinni sem nýta má til árangurs í námi og kennslu.
Á orðaforðasmiðju 20. nóvember verður boðið upp á hringekju (stöðvavinnu) þar sem fjölbreyttar orðavinnuaðferðir úr Orði af orði kennslufræðinni verða notaðar. Unnið verður út frá tilteknum efnivið til að veita innsýn í hvernig orðavinnan stuðlar að betri skilningi á efninu og námi.
Umsjón: Guðmundur Engilbertsson höfundur Orðs af orði, lektor við HA og læsisráðgjafi.
https://skolastofan.is/throunarverkefni/af-litlum-neista-vid-eflum-samskipti/