Nýbygging Smáraskóla í Kópavogi – stefna skólans endurskoðuð

Um þessar mundir (í ársbyrjun 2019) er verið að undirbúa forsögn fyrir nýbyggingu við Smáraskóla í Kópavogi. Samhliða verður stefna skólans endurskoðuð, m.a. með hliðsjón af því hvort til greina komi að skólinn verði í auknum mæli teymiskennsluskóli. Í janúar verða haldnir fundir þar sem starfsfólki, nemendum og foreldrum gefst kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri.

Þann 3. janúar var haldið starfsmannaþing þar sem unnið var í hópum við að svara eftirfarandi spurningum:

  1. Hverjir eru helstu styrkleikar skólans (samskipti, nám og kennsla, aðstaða, sérstaða, skólamenning, skólabragur)? Hvað af þessu er mikilvægast að varðveita?
  2. Hvað er brýnast að bæta í skólastarfinu?
  3. Hver sjáið þið vera sem helstu sóknarfæri skólans?
  4. Hvernig viljið þið sjá kennsluhættina í skólanum þróast?
  5. Viljið þið að skólinn skapi sér einhverja sérstöðu – og ef svo hver á hún að vera?
  6. Hverjar eru hugmyndir ykkar um framtíðarfyrirkomulag í byggingum skólans? Hvað skiptir mestu máli? Hafið þið tilteknar hugmyndir um útfærslur? (Hvað verður til dæmis í núverandi húsakynnum – og hvað í nýbyggingu?)
  7. Hvernig viljið þið sjá skólastarfið eftir tíu til fimmtán ár? Á hvað leggið þið mesta áherslu?
  8. Ef þú ættir eina ósk til handa skólanum – hver yrði hún?

Sjá má svörin með því að smella á spurningarnar.

Samantekt:

Skóli án aðgreiningar verði eitt af helstu leiðarljósum í starfinu. Unnið verði að því að auka og bæta stuðning við nemendur með námserfiðleika og móttöku nemenda með annað móðurmál en íslensku; stuðningur við þá og fjölskyldur þeirra verði efldur.

Unnið verði skipulega að því að bæta skólabrag og tryggja vellíðan nemenda og starfsfólks.

Stefnt verði að enn fjölbreyttari kennsluháttum, með aukinni einstaklingsmiðun, meiri hreyfingu í tengslum við námið, sköpun, samþættingu og aukinni ábyrgð og virkni nemenda í námi sínu. Aukin áhersla verði á sjálfstæð vinnubrögð og tækifæri nemenda til að tengja námið áhugasviðum sínum. List- og verkgreinar verði efldar og verk nemenda sýnilegri. Stefnt verði að því að námshópar séu hæfilega stórir. Áhersla á fjölbreytt tómstundastarf.

Skólasafnið verði eflt sem upplýsingaver skólans. Áfram verði unnið að því að nýta snjall- og upplýsingatækni með markvissum hætti í náminu (spjaldtölvur, vendikennsla, nýsköpun).

Umhverfi skólans verði nýtt með markvissum hætti í náminu. Aukin notkun íþrótta- og útivistarsvæðis í samstarfi við íþróttafélögin.

Útivist og fjallaferðir verði áfram eitt af einkennum skólans.

Aukin áhersla á samvinnu starfsfólks, teymiskennslu, samvinnu innan árganga og milli skólastiganna, sem og samstarf ólíkra fagstétta um skólastarfið. Foreldrastarf verði styrkt og eflt.

Þann 10. janúar var haldið nemendaþing með nemendum á unglingastigi í tvískiptum hópi. Niðurstöður þinganna eru hér.