Námsmat

Námsmat á námskeiðinu er byggt á hugmyndabanka (námsmöppu) sem þátttakendur vinna jafnóðum meðan á námskeiðinu stendur og leggja fram í lok þess og á þátttöku kennslu eða vefmálstofu.

Í hugmyndabankanum/námsmöppunni, sem er hópverkefni, eru þau gögn sem þátttakendur hafa viðað að sér, verkefni og úrlausnir þeirra (nokkurs konar handbók um leiki sem kennsluaðferð). Skipta má möppunni í kafla með hliðsjón af lýsingum á námsþáttunum (munið að hafa inngang að hverjum kafla þar sem þið lýsið uppbyggingu hans og áherslum). Þá er í námsmöppunni dagbók sem sýnir yfirlit um glímuna við viðfangsefni námskeiðsins. Áhersla er lögð á að dagbókin sé færð um svipað leyti og viðfangsefni námskeiðsins eru leyst. Við gerð námsmöppunnar hefur gefist best að fylgja lýsingum á námsþáttum námskeiðsins, sjá undir hnappnum Námið

Þannig skal ganga frá hugmyndabankanum / námsmöppunni að annar kennari, þroskaþjálfi eða tómstundafræðingur geti nýtt sér hana sem hugmyndabanka um efnið. Í möppunni skal vera efnisyfirlit og nauðsynlegar skýringar, sem og inngangsorð (formáli) og niðurlag þar sem mat er lagt á efnið. Gert er ráð fyrir að allir meðlimir í hverjum hópi eigi sitt eintak af möppunni. Hafa þarf í huga að rafrænar möppur megi birta á heimasíðu námskeiðsins. Í inngangi er áríðandi að gera grein fyrir framlagi hvers og eins og eins hvort byggt er á þátttöku í fjarnámi eða staðnámi. Áríðandi er að heimilda sé getið og að heimildaskrá fylgi skilum. Hluti af námsmöppunni er hugmynd um framlag í Leikjavefinn – Leikjabankann en því efni er einnig skilað inn á Leikjavefinn (sjá hér). Framlag sitt á Leikjavefinn – Leikjabankann kynna þátttakendur einnig síðasta námskeiðsdaginn með því að kenna öðrum þátttakendum á námskeiðinu leikina sem þeir hafa valið.

Í formála eða inngangi skal gerð skilmerkileg grein fyrir þætti hvers og eins og áréttað er að áskilið er að hver þátttakandi eigi sitt eintak í lok námskeiðsins.

Auk mats kennara fer fram jafningjamat (hver hópur metur tvær möppur sem hann fær sendar). Jafningjamat getur lækkað eða hækkað kennaraeinkunn. 

Leiðbeiningar um jafningjamat:

Við jafningjamatið styðjist þið við eftifarandi spurningar:

  • Er efnið í möppunni fjölbreytt?
  • Er efnið áhugavekjandi?
  • Leggur höfundur mikið af mörkum sjálfur?
  • Gætir hugmyndaflugs?
  • Virðist höfundur hafa lært mikið á námskeiðinu?
  • Gæti annar aðili nýtt sér efnið með auðveldum hætti?
  • Hversu góður er frágangur (málfar)?
  • Er heimilda getið?

Skrifið stutta umsögn og gefið einkunn. Notið þessar einkunnaviðmiðanir við einkunnagjöfina (sjá á þessari slóð: https://notendur.hi.is/~ingvars/namsmat/matsbanki/matskvardi.htm
Jafningjamatið sendið þið til okkar umsjónarmannanna í tölvupósti).


Leikir í frístunda- og skólastarfi


Markmið Vinnnulag Námsmat Námið Facebook

Umsjón:
Ingvar Sigurgeirsson