Í átt að settu marki – leiðsagnarmat og teymiskennsla

Skýrsla um þróunarverkefnið Í átt að settu marki

Skólaárið 2017-2018 unnu kennarar í skólunum í Húnavatnssýslum að umbótum á námsmati, með áherslu á leiðsagnarmat. Skólarnir eru Blönduskóli á Blönduósi, Grunnskóli Húnaþings vestra á Hvammstanga, Húnavallaskóli í Húnavatnshreppi og Höfðaskóli á Skagaströnd. Ráðgjafi við verkefnið var Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands.

Verkefnið var sett af stað með fræðslufundi í Húnavallaskóla, fimmtudaginn 12. október 2017).

Dagskrá:

13.00-14.15

Ingvar Sigurgeirsson: Leiðsagnarmat – hvers vegna og hvernig?

14.30-15.30 og 15.50-16.50

Ingvar Sigurgeirsson:
Dæmi um leiðsagnarmat á yngsta stigi og miðstigi
Hulda Dögg Proppé og Laufey Einarsdóttir, kennarar í Sæmundaskóla :
Dæmi um þróun námsmats og leiðsagnarmat á unglingastigi

Efnt var til samkeppni um heiti á verkefnið og hlaut það heitið Í átt að settu marki. Hugmyndina átti Sara Diljá Hjálmarsdóttir.

Um mánaðarmótin janúar / febrúar 2018 heimsótti Ingvar skólana og ræddi við kennara um þróunarverkefnin. Lokaáfangi verkefnisins á þessu skólaári var uppskeruhátíð sem haldin var í Laugabakkaskóla 18. apríl, en þá kynntu kennarar afrakstur verkefna sinna. Nefna má kennsluáætlanir, matskvarða, gátlista, hæfniviðmið, vitnisburðarblöð, eyðublöð fyrir sjálfsmat, lýsingar á fyrirkomulagi prófa og eyðublöð fyrir námssamninga, svo fátt eitt sé nefnt. Hér má sjá sýnishorn af þeirri vinnu sem kynnt var á uppskeruhátíðinni.

Frá uppskeruhátíðinni í Laugabakkaskóla

Mat stjórnenda og ráðgjafa er að vel hafi miðað að markmiðum verkefnisins, og raunar hafi verið stigin stærri skref en vænst var. Sérstaka athygli vekur hversu fjölbreytt gögn má sjá þegar litið er yfir afrakstur verkefnisins. Námsmatið hefur, að mati stjórnenda, orðið fjölbreyttara og beinst meira en áður að leiðsögn, fremur en lokamati. Þá hefur skilningur á ákvæðum námskrár um námsmat eflst. Stjórnendur nefna einnig. að verkefnið hafi stuðlað að gagnrýninni og gagnlegri umræðu og hafi stuðlað að því að námsmatið sé vandaðra og sanngjarnara fyrir alla nemendur en áður. Eins hefur verkefnið stuðlað að því að nemendur hafi fengið fjölbreyttari og heildstæðari verkefni að glíma við og í mörgum tilvikum tekið aukna ábyrgð á námi sínu.

Verkefninu verður fram haldið í haust og verður Ingvar áfram með í ráðum. Ákveðið hefur verið að bjóða þeim kennurum sem svo kjósa að tengja verkefnið við teymiskennslu. Nýja verkefnið var sett af stað með dagskrá um leiðsagnarmat og teymiskennslu á Bifröst í Borgarfirði fimmtudaginn 16. ágúst. Nanna Kristín Christiansen, verkefnisstjóri hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, fjallaði um leiðsagnarmat, en Ingvar leiddi umræðu um teymiskennslu.

Sjá nánar um þetta framhaldsverkefni hér.

 

 


25.9.2017/IS – síðast breytt 16.8.2018