Nám við hæfi

Starfseflingardagur fyrir kennara, stuðningsfulltrúa, skólaliða og annað starfsfólk á Snæfellsnesi, haldinn í Ólafsvík, miðvikudaginn, 18. ágúst 2021

 

Dagskrá:

9.15-10.15 Inngangserindi:

Ingvar Sigurgeirsson: Nám við hæfi! Getum við gert enn betur?

10.15-10.45 Kaffi

10.45-12.15 Vinnustofur 1,5 klst

 1. Helga Ágústsdóttir og Sigrún Jónína Baldursdóttir: Vinna með fjölbreytta nemendahópa: Hvernig komum við best til móts við fjöltyngda nemendur?
 2. Kristín Lilliendahl: Áskoranir og verndandi þættir í samstarfi heimilis og skóla
 3. Hjördís Óladóttir og Lilja. M. Jónsdóttir: Sveigjanlegir og fjölbreyttir kennsluhættir á yngsta stigi. 
 4. Maríanna Sigurbjargardóttir og Kristín Helga Guðjónsdóttir: Læsisfimman – leið til að efla læsi og ritun.
 5. Ása Helga Ragnarsdóttir: Sköpun í skólastofunni (dagskrá miðuð við eldra stig)

12.15.-13.10 Hádegisverður

13.10-14.40 Vinnustofur endurteknar (eða halda áfram)

 1. Helga Ágústsdóttir og Sigrún Jónína Baldursdóttir: Vinna með fjölbreytta nemendahópa: Hvernig komum við best til móts við fjöltyngda nemendur?
 2. Kristín Lilliendahl: Hlutverk kennarans í samskiptum við foreldra í áleitnum málum
 3. Lilja. M. Jónsdóttir og Hjördís Óladóttir: Sveigjanlegir og fjölbreyttir kennsluhættir á miðstigi 
 4. Maríanna Sigurbjargardóttir og Kristín Helga Guðjónsdóttir: Læsisfimman – leið til að efla læsi og ritun.
 5. Ása Helga Ragnarsdóttir: Sköpun í skólastofunni (dagskrá miðuð við yngsta stig)

Einnig verður boðið upp á málstofu / vinnustofu fyrir stuðningsfulltrúa, skólaliða og annað starfsfólk:

Fjallað verður stuttlega um ýmis einkenni náms – og hegðunarörðugleika sem nemendur glíma við og rætt um leiðir til að mæta nemendum og efla þá. Námskeiðið verður byggt upp með innleggi frá fyrirlesara og umræðum út frá spurningum frá þátttakendum. Leiðbeinandi: Ásta Björk Björnsdóttir sérkennari.

14.45-15.00 Dagskrárlok

Nánar um vinnustofurnar:

Áskoranir og verndandi þættir í samstarfi heimilis og skóla
Leiðbeinandi: Kristín Lilliendahl

Fjallað verður um samstarf heimila og skóla, svo sem hlutverk og ábyrgð, viðhorf, væntingar og sameiginleg viðfangsefni. Fjallað verður um þekktar áskoranir í samskiptum skóla og heimilis og sjónum beint að þáttum sem reynir frekar á í fámennari byggðarlögum þar sem nándin er meiri og tengslin margvísleg. Þá verður vikið að nauðsynlegum  mörkum og öðrum verndandi þáttum í áleitnum málum nemenda sem kalla á erfið samskipti fagfólks skóla og foreldra. Einnig verður hugað að hlutverki nemandans í samstarfi heimilis og skóla og lögð áhersla á aukna þátttöku hans, ábyrgð og lausnarfærni í samræmi við gildandi lög um grunnskóla.

Hlutverk kennarans í samskiptum við foreldra í áleitnum málun
Leiðbeinandi: Kristín Lilliendahl

Sjónum verður beint að kennaranum, sjálfsrýni hans og samstarfshæfni og færð rök fyrir gildi þess að móta eigin stefnu í samskiptum við nemendur og forráðamenn sem rúmast innan stefnu skólans. Ræddar verða þekktar áskoranir og varnartilhneigingar í áleitnum málum og fjallað um einfalda samtalstækni sem komið getur að gagni. Raunverulegt dæmi tengt samstarfi heimilis og skóla verður greint og raunhæfar leiðir til úrlausna ræddar.

Læsisfimman – leið til að efla læsi og ritun
Leiðbeinendur: Maríanna Sigurbjargardóttir og Kristín Helga Guðjónsdóttir

Fjallað verður um Læsisfimmuna sem er kennsluskipulag yfir kennsluhætti í læsi sem byggist á lýðræðislegu umhverfi, sjálfstæði og úthaldi nemenda. Námið fer fram á fimm stöðvum; sjálfstæður lestur, para- eða félagalestur, orðavinna, hlustun og ritun sem rímar vel við þá fjóra þætti í Aðalnámskrá sem íslenskukennslu er skipt í; talað mál, hlustun og áhorf, lestur og bókmenntir, ritun og málfræði. Þegar kennsluskipulagið er komið vel af stað getur kennarinn einbeitt sér að færri nemendum í einu, veitt þeim aðstoð og sinnt einstaklingsþörfum. Auk þess veitir skipulagið kennaranum svigrúm til þess að vinna að markmiðasetningu í lestri (CAFE-LESA) og ýtir undir fjölbreytt verkefni. Hægt er að nota skipulagið í öðrum greinum, m.a. tungumálum og náttúrugreinum.

Sköpun í skólastofunni
Leiðbeinandi: Ása Helga Ragnarsdóttir

Í vinnustofunum er leitast við að miðla nokkrum fjölbreyttum, skapandi kennsluaðferðum leiklistar sem vonandi geta nýst kennurum í starfi. Áhersla verður lögð á sköpun og hugmyndaflug í þeim verkefnum sem tekin verða fyrir. Hvernig virkjum við sköpunarkraft okkar og nemenda? Hvernig geta kennarar eflt nemendur í að sýna skapandi hugsun sína í verki? Umræða, verkleg kennsla og hugflæði.

Markmið námskeiðs er að þátttakendur:

  • Kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum
  • Öðlist færni í samþættingu námsgreina.

Sveigjanlegir og fjölbreyttir kennsluhættir
Leiðbeinendur: Lilja. M. Jónsdóttir og Hjördís Óladóttir

Í þessum vinnustofum verður fjallað um hvernig skipuleggja má fjölbreytt, sveigjanlegt og skapandi skólastarf bæði á yngsta stigi og miðstigi grunnskólans. Kynntar verða aðferðir sem fela í sér ýmsa möguleika á vali nemenda, hvernig kennari getur sinnt hverjum og einum í nemendahópnum og hvernig koma má til móts við ákvæði Aðalnámskrár m.a. um lýðræði, fjölbreytni í kennsluaðferðum og viðfangsefnum.

Árdegis-vinnustofan er miðuð við yngsta stig en eftir hádegi er áherslan á miðstig.

Vinna með fjölbreytta nemendahópa: Hvernig komum við best til móts við fjöltyngda nemendur?
Leiðbeinendur: Helga Ágústsdóttir og Sigrún Jónína Baldursdóttir

[Nánari lýsing væntanleg]