Nám við hæfi

Starfseflingardagur fyrir kennara, stuðningsfulltrúa, skólaliða og annað starfsfólk skólanna á Snæfellsnesi, haldinn í Ólafsvík, föstudaginn, 8. október 2021


Dagskrá:

9.15-10.15 Inngangserindi:

Ingvar Sigurgeirsson: Nám við hæfi! Getum við gert enn betur?

10.15-10.45 Kaffi

10.45-12.15 Vinnustofur 1,5 klst

  1. Helga Ágústsdóttir og Sigrún Jónína Baldursdóttir: Vinnustofa um starf með fjölbreyttum nemendahópum
  2. Kristín Lilliendahl: Áskoranir og verndandi þættir í samstarfi heimilis og skóla
  3. Lilja. M. Jónsdóttir og Hjördís Óladóttir: Sveigjanlegir og fjölbreyttir kennsluhættir á yngsta stigi
  4. Ása Helga Ragnarsdóttir: Sköpun í skólastofunni (dagskrá miðuð við eldra stig)
  5. Íris Björk Eysteinsdóttir og Tinna Björk Pálsdóttir: Hæfnimiðað þemanám – reynslan í Hörðuvallaskóla

12.15.-13.10 Hádegisverður

13.10-14.40 Vinnustofur endurteknar (eða halda áfram)

  1. Helga Ágústsdóttir og Sigrún Jónína Baldursdóttir: Vinna með fjölbreytta nemendahópa: Hvernig komum við best til móts við fjöltyngda nemendur?
  2. Kristín Lilliendahl: Hlutverk kennarans í samskiptum við foreldra í áleitnum málum
  3. Lilja. M. Jónsdóttir: Sveigjanlegir og fjölbreyttir kennsluhættir á miðstigi 
  4. Ása Helga Ragnarsdóttir: Sköpun í skólastofunni (dagskrá miðuð við yngsta stig)
  5. Íris Björk Eysteinsdóttir og Tinna Björk Pálsdóttir: Leiðsagnarmat – reynslan í Hörðuvallaskóla
  6. Maríanna Sigurbjargardóttir og Kristín Helga Guðjónsdóttir: Læsisfimman – leið til að efla læsi og ritun

Einnig verður boðið upp á málstofu / vinnustofu fyrir stuðningsfulltrúa, skólaliða og annað starfsfólk:

Fjallað verður stuttlega um ýmis einkenni náms – og hegðunarörðugleika sem nemendur glíma við og rætt um leiðir til að mæta nemendum og efla þá. Námskeiðið verður byggt upp með innleggi frá fyrirlesara og umræðum út frá spurningum frá þátttakendum.
Leiðbeinandi: Anna Lára Pálsdóttir kennsluráðgjafi.

14.45-15.00 Dagskrárlok

Nánar um vinnustofurnar:

Áskoranir og verndandi þættir í samstarfi heimilis og skóla
Leiðbeinandi: Kristín Lilliendahl

Fjallað verður um samstarf heimila og skóla, svo sem hlutverk og ábyrgð, viðhorf, væntingar og sameiginleg viðfangsefni. Fjallað verður um þekktar áskoranir í samskiptum skóla og heimilis og sjónum beint að þáttum sem reynir frekar á í fámennari byggðarlögum þar sem nándin er meiri og tengslin margvísleg. Þá verður vikið að nauðsynlegum  mörkum og öðrum verndandi þáttum í áleitnum málum nemenda sem kalla á erfið samskipti fagfólks skóla og foreldra. Einnig verður hugað að hlutverki nemandans í samstarfi heimilis og skóla og lögð áhersla á aukna þátttöku hans, ábyrgð og lausnarfærni í samræmi við gildandi lög um grunnskóla.

Sjá hér um Kristínu.

Hlutverk kennarans í samskiptum við foreldra í áleitnum málun
Leiðbeinandi: Kristín Lilliendahl

Sjónum verður beint að kennaranum, sjálfsrýni hans og samstarfshæfni og færð rök fyrir gildi þess að móta eigin stefnu í samskiptum við nemendur og forráðamenn sem rúmast innan stefnu skólans. Ræddar verða þekktar áskoranir og varnartilhneigingar í áleitnum málum og fjallað um einfalda samtalstækni sem komið getur að gagni. Raunverulegt dæmi tengt samstarfi heimilis og skóla verður greint og raunhæfar leiðir til úrlausna ræddar.

Sjá hér um Kristínu.

Hæfnimiðað þemanám – reynslan í Hörðuvallaskóla
Leiðbeinendur: Íris Björk Eysteinsdóttir og Tinna Björk Pálsdóttir

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að þróunarverkefni í Hörðuvallaskóla í Kópavogi sem beinst hefur að því að breyta kennsluháttum úr hefðbundinni kennslu í hæfnimiðað þemanám í 7. og 8. árgöngum sem mun síðan fylgja nemendum út skólagönguna. Markmiðið með breyttum kennsluaðferðum og samþættingu er að undirbúa nemendur betur undir að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem framtíðin hefur upp á að bjóða. Miðað er við að nemendur fái að rækta styrkleika sína og við útskrifum ábyrga, sjálfstæða, sjálfsörugga og samskiptahæfa nemendur.

Mikil áhersla er lögð á verkefnamiðað nám þar sem nemendur eru að vinna ýmist saman eða einstaklingslega að því að leysa vandamál, sækja sér þekkingu og miðla þekkingu til annarra. Nemendur rannsaka ákveðin viðfangsefni og í samþættingu vinna þau með margar námsgreinar í einu. Með því, sökkva nemendur sér dýpra í verkefni sem vekja áhuga þeirra, yfirfæra þekkingu og sjá betur tilganginn með vinnu sinni. Nemendur þjálfast einnig í skapandi vinnubrögðum. Nemendur fá þannig tækifæri til að  leita lausna, bera ábyrgð á eigin námi, vera skapandi, læra að vinna með öðrum, sýna þrautseigju og vera lausnarmiðuð. Námið verður bæði  fjölbreyttara og rými verður til að dýpka þekkingu  þar sem þess gerist þörf.  Samþætting námsgreina í Hörðuvallaskóla leggur áherslu á aukin áhrif og virka þátttöku nemenda.

Allar verkefnalýsingar eru skýrar og aðgengilegar nemendum og forsjáraðilum áður en að verkefnavinna hefst. Nemendur vita hvað til er ætlast að þeim þegar verkefni er lagt fyrir þar sem markvisst er unnið með leiðsagnarmat. Við horfum sérstaklega til þess hvenær er þörf á að einstaklingsmiða nám í samþættingu en verkefnamiðað nám er einstaklega vel til þess fallið að einstaklingsmiða það.

Íris Björk er kennsluráðgjafi og verkefnisstjóri í Hörðuvallaskóla.

Leiðsagnarmat – reynslan í Hörðuvallaskóla
Leiðbeinendur: Íris Björk Eysteinsdóttir og Tinna Björk Pálsdóttir

Undanfarin tvö ár hefur markvisst verið unnið að því að innleiða leiðsagnarmat í unglingadeild í Hörðuvallaskóla í Kópavogi. Markmiðið er að námsmenning leiðsagnarmats er verði sjálfsagður hluti af skólastarfinu á öllum aldursstigum. Leiðsagnarnám snýst um að nemendur viti nákvæmlega til hvers er ætlast af þeim, að þeir upplifi væntingar frá kennurum og vaxtarhugarfar er ríkjandi. Nemendur eru meðvitaðir um eigið nám og litið er á mistök sem lærdómstækifæri.  Nemendur eflast í þrautseigju þar sem þeir fá hrós og hvatningu fyrir að reyna á sig og takast á við verkefni í stað þess að fá hrós fyrir hversu klár eða fljót þau eru. Mikið rými er gefið fyrir samtal bæði milli nemenda og svo milli nemenda og kennara. Viðmið um árangur eru skýr í öllum verkefnum og nemendur sjá nákvæmlega hvað þau þurfa að gera til þess að fá grænt í hæfnikortið sitt áður en þau hefja vinnu. Síðan á sér stað endurgjöf í gegnum samtal með kennurum í gegnum verkefnið þar sem nemandinn hefur tækifæri á að bæta sig og ná hæfni sem ekki náðist í upphafi. Nemendur eru hvattir til skapandi vinnubragða sem getur leitt til hæfni umfram það sem beðið var um og geta því þróað verkefni sín í þær áttir sem þau hafa áhuga á. Í leiðsagnarmati leggjum við mikla áherslu á kveikjur, könnun forþekkingar og að hafa fyrirmyndir af verkefnum þannig að nemendur geri sér alltaf grein fyrir til hvers er ætlast. Skýrleiki er mikilvægur og samræður stór hluti af endurgjöf.

Íris Björk er kennsluráðgjafi og verkefnisstjóri í Hörðuvallaskóla.

Læsisfimman – leið til að efla læsi og ritun
Leiðbeinendur: Maríanna Sigurbjargardóttir og Kristín Helga Guðjónsdóttir

Fjallað verður um Læsisfimmuna sem er kennsluskipulag yfir kennsluhætti í læsi sem byggist á lýðræðislegu umhverfi, sjálfstæði og úthaldi nemenda. Námið fer fram á fimm stöðvum; sjálfstæður lestur, para- eða félagalestur, orðavinna, hlustun og ritun sem rímar vel við þá fjóra þætti í Aðalnámskrá sem íslenskukennslu er skipt í; talað mál, hlustun og áhorf, lestur og bókmenntir, ritun og málfræði. Þegar kennsluskipulagið er komið vel af stað getur kennarinn einbeitt sér að færri nemendum í einu, veitt þeim aðstoð og sinnt einstaklingsþörfum. Auk þess veitir skipulagið kennaranum svigrúm til þess að vinna að markmiðasetningu í lestri (CAFE-LESA) og ýtir undir fjölbreytt verkefni. Hægt er að nota skipulagið í öðrum greinum, m.a. tungumálum og náttúrugreinum.

Maríanna og Kristín Helga eru kennarar við Grunnskóla Snæfellsbæjar.

Sköpun í skólastofunni
Leiðbeinandi: Ása Helga Ragnarsdóttir

Í vinnustofunum er leitast við að miðla nokkrum fjölbreyttum, skapandi kennsluaðferðum leiklistar sem vonandi geta nýst kennurum í starfi. Áhersla verður lögð á sköpun og hugmyndaflug í þeim verkefnum sem tekin verða fyrir. Hvernig virkjum við sköpunarkraft okkar og nemenda? Hvernig geta kennarar eflt nemendur í að sýna skapandi hugsun sína í verki? Umræða, verkleg kennsla og hugflæði.

Markmið námskeiðs er að þátttakendur:

    • Kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum
    • Öðlist færni í samþættingu námsgreina.

Ása Helga er leikari og fyrrverandi aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Sveigjanlegir og fjölbreyttir kennsluhættir
Leiðbeinandi: Lilja. M. Jónsdóttir 

Í þessum vinnustofum verður fjallað um hvernig skipuleggja má fjölbreytt, sveigjanlegt og skapandi skólastarf bæði á yngsta stigi og miðstigi grunnskólans. Kynntar verða aðferðir sem fela í sér ýmsa möguleika á vali nemenda, hvernig kennari getur sinnt hverjum og einum í nemendahópnum og hvernig koma má til móts við ákvæði Aðalnámskrár m.a. um lýðræði, fjölbreytni í kennsluaðferðum og viðfangsefnum.

Árdegis-vinnustofan er miðuð við yngsta stig en eftir hádegi er áherslan á miðstig. Gestur í árdegisdagskrá er Hjördís Óladóttir, kennari við Hrafnagilsskóla.

Lilja M. Jónsdóttir er kennslufræðingur og fyrrverandi lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Vinnustofa um starf með fjölbreyttum nemendahópum
Leiðbeinendur: Helga Ágústsdóttir og Sigrún Jónína Baldursdóttir

Athugið að sama vinnustofa er keyrð fyrir og eftir hádegi.

Sérstaklega verður fjallað um nemendur með fjölbreyttan tungumálabakgrunn. Rýnt verður í málheim barna og áhrif málheims á máltöku og íslenskunám. Fjallað verður um nokkur álitamál og við skoðum saman kennsluaðferðir sem hafa gefist vel í starfi með fjöltyngdum nemendahópum. Sérstaklega verður fjallað um farsæl foreldrasamskipti. Gert er ráð fyrir umræðum og virkri þátttöku í vinnustofunni.

Þær Helga og Sigrún eru ráðgjafar hjá Miðju máls og læsis (sjá hér)