Morgunstund í Brekkubæjarskóla

Sá siður hefur verið í Brekkubæjarskóla á Akranesi síðan 2003 að efna til svokallaðra Morgunstunda, þrisvar til fjórum sinnum á ári. Þar koma nemendur fram og flytja ýmis atriði, m.a. tónlistaratriði, sum frumsamin að hluta til, fyrir skólafélaga og foreldra sem fjölmenna á þennan skemmtilega viðburð. Atriðin eru gjarnan þannig að heilu bekkjardeildirnar koma fram. Textum er varpað á vegg svo allir geti sungið með. Í skólanum, og raunar báðum skólunum á Skaga er öflugt tónlistarlíf – og í skólahljómsveitina (Húsbandið) í Brekkubæjarskóla eru allir velkomnir. Öll tækni- og sviðsvinna og undirbúningur er í höndum nemenda með aðstoð kennarateymis – og auðvitað er öflugur tónmenntakennari við skólann. 

Á Morgunstundum fer fleira fram, m.a. er þar tilkynnt um viðurkenningar sem nemendur hljóta, t.d. fyrir dugnað, vináttu, áhuga, hjálpsemi, glaðværð, umhyggjusemi, framfarir, jákvæðni, metnað, vinnusemi og skapandi hugsun! Og fleiri viðurkenningar eru veittar, t.d. fyrir áhugaverð skólaverkefni, m.a. hönnun umhverfismerkis skólans.

Dagskráin endar gjarnan á kröftugum samsöng og dansi.

Afar mikil ánægja er með þetta meða foreldra, nemenda og starfsfólks.

Myndirnar tala sínu máli (þær eru teknar 10. október 2019).

Smellið á myndina til að hlusta!