Lilja M. Jónsdóttir

Lilja M. Jónsdóttir er lektor í kennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er almenn kennslufræði og kennslufræði samfélagsgreina. Lilja var grunnskólakennari við Æfingaskóla Kennararháskóla Íslands (nú Háteigsskóli) frá 1978 til 2003, eða í samtals 25 ár. Lilja hefur lagt áherslu á fjölbreytt og sveigjanlegt skólastarf þar sem lýðræði í skólastarfi, samkomulagsnám, samþætting námsgreina, þemanám, skapandi starf og einstaklingsmiðað nám og kennsla hafa verið í fyrirrúmi. Þá hefur hún langa reynslu af námskeiðahaldi fyrir kennara, ásamt ráðgjöf við þróunarverkefni í einstökum skólum. Auk þessa hefur hún skrifað bækur m.a. um kennslufræði og kennsluleiðbeiningar með námsefni í samfélagsfærði og lífsleikni.

Lilja lauk meistaranámi frá University of Toronto/OISE 1995 og doktorsnámi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands 2013. Viðfangsefni doktorsrannsóknar hennar var gengi og líðan kennara fyrstu fimm árin í grunnskólakennslu. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skapa þekkingu sem varpaði ljósi á hvernig þeir náðu tökum á starfi sínu og hvernig þeir þróuðust sem byrjendur; hvað hindraði og hvað studdi þá. Annað markmið var að athuga hvers konar leiðsögn nýliðar í kennslu þurfa á að halda fyrstu árin í kennslu. Meðal annarra rannsókna Lilju eru um viðhorf byrjenda í grunnskólakennslu til kennarnáms síns, hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara og hugmyndir nemenda á unglingstigi um lýðræði og viðhorf þeirra til lýðræðis í skólastarfi.

Á undanförnum árum hefur Lilja helgað sig þróun kennaranáms og meðal annars verið leiðandi við að koma á launuðu starfsnámi á seinna árinu í meistaranámi grunnskólakennaranema.