Kjarni – þróunarverkefni í Flóaskóla

Í Flóaskóla er verið að vinna afar áhugavert þróunarstarf á unglingastigi. Kennararnir hafa sameinast um svokallaðan kjarna sem byggir á 12 kennslustundum á viku. Kjarni samanstendur af íslensku, stærðfræði, samfélags- og náttúrugreinum, þremur kennslustundum í hverri grein. Í þessum tímum ráða nemendur viðfangsefnum sínum, sem og vinnustað og með hverjum þeir vinna, en áhersla er lögð á jafningjastuðning. Hver nemandi á sitt borð, en getur valið sér að vinna annars staðar. í lok vikunnar taka kennararnir stöðuna og skrá framvindu hvers nemanda. Þá halda þeir einnig vikulega fundi sína þar sem farið er yfir starfið og áætlanir endurmetnar ef þarf.

Bæði kennarar og nemendur eru sáttir við þessa tilhögun. Það tók nemendur þó nokkurn tíma að venjast þessum kennsluháttum. Mikil áhersla er lögð á samráð við þá um námið.

Kjarnavinnan er brotin upp með svokölluðum sérfræðingavikum, en þá ráða nemendur viðfangsefnum sínum. Sem dæmi um verkefni sem þeir hafa kosið að glíma við er nám í finnsku og portúgölsku, að fræðast um sögu súkkulaðikökunnar, rannsókn á tölvuleik, brandarabók, að kynnast afreksmanni í íþróttum.

       

Þá eru haldnar þemavikur og eins vinna nemendur allt skólaárið að verkefni sem byggir á því að nemendur vinna með eyju sem þau hafa skapað. Þegar þessi frásögn er skrifuð (17. október 2019) var búið að finna eyjunni stað, ákveða landslag og helstu örnefni. Á eyjunni verður töluð danska og þess gætt að áletranir á vegaskiltum séu einnig á ensku fyrir ferðamenn!

Atkvæði greidd um hvaða eyjahugmynd eigi að velja!