Úr vorskýrslu Oddeyrarskóla 2017-2018 (sjá hér, ath. að orðalagi er ögn hnikað á nokkrum stöðum):
Oddeyrarskóli leggur mikið upp úr góðu samstarfi við foreldra og viljum við fyrst og fremst leggja áherslu á gagnkvæmt traust og jákvæð samskipti við fjölskyldur nemenda okkar. Við trúum því að samábyrgð og samvinna heimila og skóla sé hornsteinn að þroska, námi og velferð barna og ungmenna og við bjóðum foreldra og börn velkomin til samstarfs við okkur í Oddeyrarskóla. Fræðimönnum ber saman um mikilvægi samstarfs heimila og skóla. Slíkt samstarf getur haft mikil áhrif á líðan, þroska og árangur nemenda. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að víða sé þörf á bættu samstarfi skóla við fjölskyldur og samfélagið. Á árunum 2002-2006 var unnið þróunarverkefni í Oddeyrarskóla um bætt samstarf heimila og skóla. Þetta þróunarverkefni var hluti af meistaraverkefni Ingibjargar Auðunsdóttur, sem lengi vel hefur starfað hér við Miðstöð skólaþróunar. Meginmarkmið Ingibjargar á þessum tíma var annar vegar að öðlast betri skilning á samstarfi skóla, fjölskyldna og samfélags og hins vegar að reyna starfsaðferðir Epsteins og laga þær að aðstæðum í íslenskum grunnskóla. Í þessari þróunarvinnu nýtti Ingibjörg sér persónulega reynslu af samstarfi heimila og skóla sem foreldri, kennari, sérkennslufulltrúi og kennsluráðgjafi. Einn liður í þróunarverkefninu sem unnið var í Oddeyrarskóla var að koma á fót heimsóknum á heimili nemenda. Markmið verkefnisins var að skapa umgjörð um jákvæð samskipti heimila og skóla sem lið í því að efla námslega og félagslega færni nemenda. Ákveðið að skipuleggja náið samstaf umsjónarkennara við foreldra nemenda í 1. bekk og 8. bekk. Stór þáttur í því var og er að heimsækja alla nemendur og foreldra þeirra.
Nemendur í 1. bekk fá heimsókn að vori, áður en nemandinn byrjar í 1. bekk og nemendur í 8. bekk fá heimsókn að hausti áður en þeir byrja í unglingadeild. Heimsóknir umsjónarkennara í 1. bekk eru stuttar heimsóknir þar sem kennarinn kynnir sig og færir nemandanum og foreldrum upplýsingar um skólann. Heimsóknin fer oft nánast fram á tröppunum eða í forstofunni. Kennarinn hittir nemandinn og nemandinn hittir tilvonandi kennara. Fjölskyldan fær boðsbréf á skólakynningu og kennarinn tekur mynd af barninu. Við ákváðum að efla foreldrasamstarfið á unglingastigi þar sem það var reynsla okkar að stundum dalaði það á unglingsárunum. Undanfarin 15 ár hafa kennarar sem eru að taka við 8. bekk heimsótt öll heimili í lok ágúst og byrjun september. Heimsóknirnar hafa verið kynntar að vori í 7. bekk og svo hafa kennarar sent tölvupóst til að minna á sig í ágúst og bóka tíma. Farið hefur verið í heimsóknir á virkum dögum milli 14 og 20. Alltaf hefur verið boðið upp á að hittast í skólanum ef foreldrar óska þess frekar. Áhersla lögð á að hitta alla foreldra og nemendur og höfum við stundum farið á tvö heimili ef nemandinn býr á tveimur stöðum en einnig hafa foreldrar komið til fyrverandi maka til að taka þátt í heimsókninni.
Heimsóknirnar eru einskonar kynning og tækifæri til að fá upplýsingar beint frá foreldrum og unglingunum. Unglingar og foreldrar fá tækifæri til að koma sinni sýn á fyrri skólagöngu á framfæri og vængingum til skólans. Það sem stendur þó upp úr er að koma á nærsambandi, upplýsa og bjóða þátttöku í samstarfsverkefninu. Það má segja að Oddeyrarskóli hafi valið að sýna á afgerandi hátt að hann taki mark á foreldrum og leiti leiða til að byggja upp traust. Þannig er lögð áhersla á að samvinna við foreldra sé mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Það var þó ekki átakalaus sem þessi stefna var tekin. Þar sem heimsóknir kennara á heimili nemenda kosta skólann töluvert bæði í launum og tíma er gagnlegt að staldra við og meta hverju verkefnið er að skila. Auk þess er fróðleg bæði fyrir kennara sem ekki voru starfandi í skólanum þegar verkefnið hófst að sjá hverju það er að skila. Ingibjörg Auðunsdóttir mat verkefnið í sinni rannsókn og lofar það góðu og styrkti kennara skólans í að halda verkefninu áfram. Síðan þá hafa verið gerðar fleiri rannsóknir, bæði árið 2008 og á þessu skólaári. Auk þess svara foreldrar reglulega spurningum um foreldrasamstarf í könnun Skólapúlsins. Óhætt er að segja að niðurstöður þessara rannsókna bendi allar til þessa að halda eigi heimsóknunum áfram og nýta þær sem grunn að öflugu foreldrasamstarfi.