Foreldrar skipuleggja viðburði með nemendum

Lilja M. Jónsdóttir (2011), f.v. lektor við Menntavísindasvið, gefur dæmi um þetta úr Háteigsskóla, þar sem foreldrar skiptust á að skipuleggja mánaðarlega viðburði:

Á fyrsta foreldrafundi haustsins var foreldrum skipt í átta til níu hópa. Í hverjum hópi voru foreldrar tveggja til þriggja nemenda í hvorum bekk árgangsins og þurfti hver hópur að skipuleggja og sjá um einn viðburð í mánuði. Sem dæmi um viðburði voru haustlitaferð, spilakvöld, jólakvöldstund, skautaferð eða kakó á kaffihúsi. Ég tel það skipta afar miklu máli að umsjónarkennarar taki þátt í þessum ferðum enda gefast þá fjölmörg tækifæri fyrir þá að kynnast nemendum og foreldrum við aðrar aðstæður en innan veggja skólans. Nokkur hefð komst á það að einn hópurinn hafði það eina hlutverk að hafa umsjón með veitingum á svokölluðum gestakvöldum. Samþættum þemaverkefnum lauk jafnan með gestakvöldi sem var þá nokkurs konar uppskeruhátíð verkefnisins þar sem nemendur kynntu niðurstöður sínar á fjölbreyttan og skapandi máta; til dæmis í máli og myndum, með leiklist, tónlist eða dansi. Þessi hópur gekk síðan frá með kennurunum. Eins og gefur að skilja er á þessum stundum í mörgu að snúast fyrir kennarana og reyndist þetta ein sú mesta hjálp sem þeir gátu fengið. Að auki kynntust foreldrar kennurum í starfi við þessi tækifæri.

Lilja M. Jónsdóttir. (2011, maí). Farsælt foreldrasamstarf – hvað getur falist í því? Tímarit Heimilis og skóla, 10-11.