Betri bekkjarbragur – verkefni í skólunum í Borgarbyggð 2018-2019

Markmið verkefnisins var að bæta bekkjarbrag í grunnskólum Borgarbyggðar, auk þess að treysta í sessi innleiðingu teymiskennslu.

Verkefnið fólst í fræðslu, umræðum og mótun betri bekkjarbrags í öllum bekkjum grunnskóla Borgarbyggðar. Það var gert með því að nýta starfsdaga, foreldrafundi og kennarafundi í umræður og fræðslu um hvað stuðlar að góðum bekkjarbrag og þar með góðum og jákvæðum skólabrag. Einnig að nýta ákveðnar kennslustundir í öllum bekkjum í fræðslu, umræður og mótun bekkjarsáttmála um samskipti. Leitast var við að gera þetta í anda Uppeldis til ábyrgðar í Grunnskólanum í Borgarnesi og samkvæmt hugmyndafræði Leiðtogans í mér í Grunnskóla Borgarfjarðar. Að auki var lögð áhersla á að starfshættir teymisvinnu kennara og samvinnunáms nemenda ríktu í skólunum. Þetta var þriðja árið sem unnið var að innleiðingu teymiskennslu í skólunum (sjá um það verkefni þessa skýrslu til Sprotasjóðs.)

Verkefnið var sett af stað með  dagskrá / námskeiði að Varmalandi miðvikudaginn 15. ágúst 2018. Námskeiðið hófst kl. 9.00 með dagskrá undir stjórn Vöndu Sigurgeirsdóttur.  Vanda nefndi erindi sitt Hópefli og samvinnuleikir og fjallaði um hvernig kennarar geta notað hópefli og samvinnuleiki til að efla bekkjaranda og skólabrag. Dagskráin var að hluta fræðileg en mest áhersla var á að veita kennurum hagnýt verkfæri.

Eftir hádegishlé höfðu kennarar val um þrjú stutt námskeið: Ása Helga Ragnarsdóttir leikari og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fjallaði um leiki og leiklist til að efla bekkjarbrag. Lilja M. Jónsdóttir lektor við Menntavísindasvið bauð námskeið um hvernig efla má bekkjarbrag á mið- og unglingastigi með lýðræðislegum kennsluháttum – og fleiri leiðum. Kristín Lilliendahl aðjúnkt við Menntavísindasvið og ráðgjafi hjá Erindi (sjá https://www.erindi.is/) leiðbeindi um stuðning við nemendur í vanda og samskipti við foreldra (sjá nánar um námskeiðin hér).

Um morguninn vann starfsfólk einnig í hópum við að taka saman lista yfir væntingar sínar gagnvart verkefninu, óskir og hugmyndir. Niðurstöður má sjá hér.

Ráðgjafi verkefnisins heimsótti skólana tvisvar á skólaárinu, í október 2018 og apríl 2019, fylgdist með kennslu og átti fundi með teymunum. Vorið 2019 var efnt til starfsmannafunda í báðum skólunum þar sem leitað var mats starfsmanna á því hvernig innleiðing teymiskennslunnar hefði gengið, hvað mætti betur fara og hvaða stuðning þyrfti á næsta skólaári til að markmið verkefnisins næðust. Hliðstæður fundur fór fram innan skólaþjónustunnar. Umræðan fór fram í hópum og var við hana byggt á svokallaðri veggjakrotsaðferð[1] og eftirfarandi spurningar lagðar til grundvallar:

  • Hvað hefur gengið vel í innleiðingu á teymiskennslu?
  • Erum við að ná markmiðum okkar varðandi fjölbreytta kennsluhætti?
  • Hvað hefur tekist vel við að stuðla að betri bekkjarbrag?

Auk þess voru undirspurningar um hvað mætti betur fara og hvaða stuðning þyrfti á næsta skólaári til að ná enn betri árangri. Jafnframt var spurt hvað leggja ætti áherslu á næsta skólaári þegar stefnt yrði að enn meiri athygli á skóla fyrir alla.

Mat kennara og stjórnenda var að mannauður skólanna nýttist betur eftir innleiðingu teymiskennslunnar og eins að hún hefði góð áhrif á samskipti og bekkjarbrag. Þá kom skýrt fram að þar sem möguleikar hefðu verið á aðild þroskaþjálfa að teymum hefði það styrkt þau. Sjá nánar um niðurstöður þessara funda í skýrslunni Innleiðing teymiskennslu: Samtal við kennara (Anna Magnea Hreinsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson, 2019).

[1] Sjá hér: https://skolastofan.is/veggjakrotsadferdir/


31.6. 2018