Austurbæjarskóli – nemendaþing

Þingið hófst kl. 9.00 miðvikudaginn 11. október 2017 en þá hittu nemendur í 10. bekk nemendur í 1.-4 bekk í aldursblönduðum hópum (10-15 í hverjum hópi) og stýrðu með þeim rýnihópafundum (matsfundum) þar sem eftirfarandi spurningar voru ræddar:

  1. Nefnið eitthvað eitt, tvennt eða þrennt sem þið eruð ánægð með í Austurbæjarskóla?
  2. Nefnið eitthvað eitt, tvennt eða þrennt sem þið viljið helst breyta í skólanum?
  3. Hvaða ráð viljið þið gefa kennurum eða stjórnendum?
  4. Ef þið ættuð að ráðstafa fimm milljónum fyrir skólann – hvernig mynduð þið verja þeim? EÐA: Ef þið ættuð eina ósk til handa skólanum – hvers mynduð þið óska?

Síðan var fylgt þessum leiðbeiningu: Orðið er látið ganga milli nemenda í þeirri röð sem þeir sitja í hringnum. Allir fá tækifæri til að taka til máls. Gjarnan er notaður ákveðinn hlutur sem sá nemandi heldur á sem hefur orðið hverju sinni (t.d. hljóðnemi, lítill bolti eða pera sem er þá tákn fyrir góða hugmynd). Tveir til þrír 10. bekkingar funda með hverjum hópi yngstu barnanna, einn í hlutverki umræðustjóra, en hinn eða hinir í hlutverki ritara. Gert er ráð fyrir að hver fundur standi eina kennslustund. Leiðbeiningar um framkvæmd matsfunda má sjá hér.

Kl. 9.40-10.20 hittust nemendur í 5.-6. bekk í aldursblönduðum hópum 10-15 í hverjum hópi) með kennurum á stiginu. Þess var gætt að kennarar stýrðu ekki umræðum í sinum umsjónarhópum. Kennarar voru bæði umræðustjórar og fundarritarar.

Kl. 9.40-11.00 hittust 7.-8. bekkingar í Spennistöðinni og ræddu eftirfarandi spurningar í hópum:

  1. Hverjir eru helstu styrkleikar Austurbæjarskóla?
  2. Hvað þarf helst að bæta í náminu eða skólastarfinu?
  3. Hvernig á skólinn að taka á móti nýjum nemendum?
  4. Hvað geta foreldrar gert til að bæta skólann?
  5. Hvað geta nemendur gert til að bæta skólann?
  6. Hvernig viljið þið hafa Austurbæjarskóla í framtíðinni (t.d. ef og þegar ykkar eigin börn ganga í skólann)?
  7. Ef það ætti að bæta við fleiri námsgreinum – hverjar yrðu þær?
  8. Hver eiga að vera einkunnarorð Austurbæjarskóla?

Fundirnir fylgdu þeirri aðferð sem kennd hefur verið við veggjakrot (sjá hér) og tók hver nemandi þátt í umræðum um þrjár til fimm spurningar, eftir því sem tíminn leyfði. Ingvar Sigurgeirsson stýrði þessum fundum, með aðstoð stjórnenda.

Kl. 11.00-12.30 komu 9.-10. bekkingar til sams konar fundar.