Að ná árangri í hópvinnu

Mjög algengt er að nemendur grunnskóla fáist við hópverkefni. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að nemendur nái árangri í hópastarfi.  Til þess að aðferðin skili árangri er nauðsynlegt að þjálfa nemendur í markvissum vinnubrögðum svo að hópurinn komist lengra en einstaklingurinn.

Ef vel tekst til verður hlutverk kennarans fyrst og fremst í því að vera hópunum til stuðnings. Í undirbúningi þarf kennarinn að veita hópunum góð ráð varðandi tímasetningu, áhöld, tæki, skipulagningu o.þ.h.  Markmiðið er að hóparnir verði sjálfstæðir í eigin vinnubrögðum.

Undirbúningur kennslunnar

  1. Kynna þarf nemendum árangursrík vinnubrögð og verkaskiptingu áður en hafist er handa.  Nauðsynlegt er að kynna, ræða og þjálfa hlutverk hvers og eins í hópvinnunni og undirstrika að allir fái að spreyta sig á öllum hlutverkum t.d. á skólaárinu. Nauðsynlegt er að tilgreina að öll hlutverkin skipti máli.
  2. Mikilvægt er að hafa þjálfunarverkefni sem skerpa vinnubrögð og verkskiptingu.
  3. Ganga þarf úr skugga um að allar leiðbeiningar, tæki og áhöld séu klár áður en vinnan hefst og aðstaðan sé við hæfi svo að hópar t.d. truflist ekki of mikið af hvorum öðrum.
  4. Útskýrið fyrir nemendum heildarumfang vinnunnar, hversu margar kennslustundir fari í hópvinnuna, hver verkefnaskilin eru o.þ.h.  Æskilegt er að rammi vinnunnar sé nemendum sýnilegur t.d. á veggspjaldi.
  5. Ræðið og útskýrið hvers er krafist í hópvinnu, þ.e.a.s. að vinna saman, hlusta á hvað hinir hafa til málanna að leggja og bera virðingu fyrir skoðunum annarra, jafnvel þótt skoðanir séu skiptar.  Ef ágreiningur er þurfi allir að vera tilbúnir að miðla málum og gagnrýni á vinnubrögð og annað þarf að vera uppbyggileg.  Komið með dæmi sem nemendur ræða.
  6. Skiptu bekknum í 4-6 manna hópa.  Hópur má hvorki vera of stór né of lítill ef kostir hópvinnu eiga að nýtast sem skyldi. Það skilar að öllu jöfnu bestum árangri að þú skiptir bekknum markvisst í hópa þó svo að tilviljankennd röðun sé oft æskileg. Hvar hópur fær sitt ákveðan nafn – A, B, C … eða þá að hópurinn velur sér nafn.
  7. Láttu hópana skipta með sér hlutverkum (sjá hlutverk í nemendahópum).  Ýmist er hægt að láta einstaklinga draga „hlutverkaspjald“ eða skip eftir röð eins og fæðingardegi í mánuði.
  8. Láttu alla sem hafa sama hlutverk sitja saman og fara vandlega yfir hvað er hlutverk þeirra.  Þegar allir hafa farið yfir sitt hlutverk í hópi geta hóparnir spurt kennara ef eitthvað er óljóst.
  9. Þegar hlutverk allra eru ljós sest hver og einn í sinn vinnuhópa og vinnan að hópverkefninu hefst.

Hlutverk í nemendahópum

Hér eru tilgreind 9 hlutverk sem nemendur geta haft í vinnuhópi.  Kennari velur hvaða hlutverk hann kýs að hafa allt eftir aldri nemenda, tímalengd og eðli verkefnisins. Kennari getur sameinað tvö eða fleiri hlutverk í eitt hlutverk svo að hlutverkin hæfi aðstæðum.

Hópstjóri 

Hópstjóri stýrir umræðum og sér til þess að að allir leggi sitt af mörkum og hópurinn sé að sinna verkefninu.  Hópstjóri fer vandlega yfir leiðbeiningar með hópnum. Hann gengur líka úr skugga um að allir séu með á nótunum í samtalinu. Hann sér einnig til þess að vinnuhávaði sé hæfilegur. Hann nær líka í aðstoð t.d. kennarann ef hópurinn þarf á því að halda.

Kynnir 

Hann kynnir niðurstöður hópsins fyrir stóra hópnum. Mikilvægt er að kynnir kynni hugmyndir hópsins en ekki sínar eigin.

Ritari 

Skrifar niður það helsta sem kemur fram hjá hverjum og einum og í umræðunni og eins líka niðurstöður mælinga og athugana s.s. í tilraunum. Ritari tekur saman loka greinargerð.

Áhaldastjóri 

Tekur saman, dreifir og skilar öllum áhöldum og efnivið sem hópurinn notar í vinnunni sinni og hefur yfirsýn yfir þetta á meðan vinnunni stendur.

Tíma- og öryggisvörður 

Sér til þess að tímaáætlun standist. Lætur hópinn vita hvort hraða eða hægja þurfi vinnunni. Hann tryggir að hópurinn hafi nægan tíma í frágang.  Ef hópurinn er að vinna með hættuleg efni og áhöld til dæmis í eðlis- og efnafræði sér hann til þess að öllum öryggisleiðbeiningum sé framfylgt.

Teiknari og hönnuður 

Teiknar mynd/ir sem þarf í vinnu hópsins og hannar veggspjöld o.þ.h.

Hrósari 

Hvetur aðra í hópnum áfram með því að benda á það góða og athyglisverða sem kemur fram í orðum og athöfnum þeirra. Spyr spurninga til að fá fram nýjar hugmyndir.

Rýnir 

Gengur úr skugga um að svör séu rétt.  Gengur úr skugga um að það sem er skrifað sé rétt stafsett og málfarslega rétt.

Grúskari 

Les allar leiðbeiningar mjög nákvæmlega.  Grúskari leitar að heimildum til að nota í vinnu hópsins ef þörf er á slíku.

Sjá einnig:

Helgi Grímsson þýddi og staðfærði