7. námsþáttur: Námsspil og töfl

Hefurðu einhvern tímann leitt hugann að því hvers konar fyrirbæri spil eru? Hvað er þetta fyrirbæri eiginlega? Reyndu að skilgreina spil? Hvað er það sem aðgreinir spil frá öðrum leikjum? Þetta er kjörið efni fyrir fjarnema og þá sem ekki komast í staðtímann að ræða á Facebook. Eins eruð þið hvött til að miðla hugmyndum ykkar í milli: Hver eru bestu spilin til að nota með krökkum?

Kynnið ykkur líka þetta efni:

Spil eru til um allan heim og saga þeirra nær þúsundir ára aftur í tímann. Sum þeirra tengjast trúarbrögðum og goðsögum og er spilið Lúdó gott dæmi um það – uppruna þess má rekja til indverks spils, Parcheesi (Pachisi). Um Parcheesi má lesa hér:

Annað austrænt spil sem margir þekkja er Snákaspil, er það er einnig byggt á trúartáknum. Hér er að finna góða lýsingu á þessu spili.

Langt mál mætti hafa um handspilin sem líka eiga sér langa og merka sögu. Um þá sögu má lesa t.d. í bókinni Saga spilanna eftir Guðbrand Magnússon (Siglufjörður: Siglufjarðarprentsmiðja, 1976). Eins er auðvelt að lesa sér til um þessa sögu með því að leita á Netinu. Kjörið verkefni fyrir nemendur er að búa til eigin handspil og má gjarnan gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.

Í þessum námsþætti einbeitum við okkur að svokölluðum námspilum, þ.e. spilum sem samin eru þannig að hægt sé að læra eitthvað af þeim. Mörg algeng spil sem við þekkjum vel hafa raunar augljóst náms- eða þroskagildi. Má þar nefna spil eins og Trivial Pursuit, sem er spurningaleikur sem væntanlega er hægt að fræðast talsvert af að spila. Að vísu er auðvelt að benda á að líklega myndu nemendur læra miklu meira af því að búa til eigið spurningaspil, t.d. upp úr námsefninu sínu. Scrabble er annað spil sem byggist á að búa til orð, en þátttaka í því þjálfar nemendur áreiðanlega í stafsetningu og eykur orðaforða. Svo má nefna spil sem reyna á sköpun og ímyndunarafl. Góð dæmi um slík spil eru Pictionary og Actionary. Pictionary er spil sem hefur fengist í prentaðri útgáfu en er engu að síður auðvelt að útbúa með heimatilbúnum gögnum. Þetta gildir raunar um flest spil. Gott dæmi um það er spilið Scattergories en mjög auðvelt er að útbúa eigin útgáfu af því, sbr. þessi útgáfa á Leikjavefnum – Leikjabankanum: Öll orð byrja á sama staf.

Ekki má gleyma þeim töflum sem öðru fremur reyna á hugsun. Manntaflið eða skákin er líklega þekktast, en fjöldi spila af þessu tagi er til. Allir þekkja refskák og millu, en einnig má nefna japanska taflið GoStratego, Mastermind og Othello (einnig til undir heitnum Reversi og Ups and Downs).

Líklega má halda því fram að eitthvað megi læra af flestum spilum – en hér erum við fyrst og fremst að skoða spil sem sérstaklega eru samin til að hægt sé að læra af þeim – þessi spil köllum við námspil.

Með námspilum er oftast átt við spil sem sérstaklega eru gerð fyrir skólanotkun. Fjölmörg námspil eru á mörkuðum í öðrum löndum, en tiltölulega fá spil hafa verið gefin út á íslensku. Erlendu spilin er mörg hægt að nota í kennslu hér á landi og má nefna að nota ensk og dönsk spil í tungumálakennslu. Svo eru til fjölmörg spil fyrir stærðfræðikennslu. Verslunin Spilavinir í Reykjavík er sérhæfð verslun með spil, m.a. námspil. Í versluninni A4 er yfirleitt til talsvert úrval af námspilum.

Þórarinn Þórarinsson sem var skólastjóri á Eiðum var mikill áhugamaður um námspil og samdi og gaf út, snemma á áttunda áratug síðustu aldar, tvö spil sem urðu vinsæl, Íslendingaspilin og Söguspilið (útgefandi Leiknám). Íslendingaspilin eru handspil, sem fræða nemendur um fornmenn en Söguspilið byggist á ýmsum fróðleik um ýmsa atburði Íslandssögunnar. Áður, eða um 1960 hafði Þorsteinn Sigurðsson gefið út svokallaða Skólakubba sem víða eru til í skólum og eru afbragðs kennslugögn og voru mikið notuð og byggja m.a. á hugmyndum um leiki. Af öðrum námspilum sem gefin hafa verið út á Íslandi má nefna Sturlungaspilið (höfundur Gunnar Þór Guðmundsson, útgefandi Svart á hvítu), sem eins og nafnið bendir til byggist á atburðum á Sturlungaöld, Tónaflóð (höfundur Andri Marteinsson, útgefandi Námsgagnastofnun) sem á að fræða nemendur um hljóðfærin í sinfóníuhljómsveitinni og spilið Flakkað um Frakkland (höfundur Páll Erlingsson, útgefandi Námsgagnastofnun) sem er er landafræðileikur. Þá má nefna Íslenska fuglaspilið (höfundur Óskar Sandholt, útgefandi Æskan). Þessi spil eru til í flestum skólum. Flóknara spil er Landnámsleikur (höfundar Ingvar Sigurgeirsson o.fl., útgefandi Námsgagnastofnun), en hann er af ætt hermileikja (simulation game) en í þeim felst að reynt er eftir því sem hægt er að líkja eftir raunverulegum aðstæðum og spilareglur eiga allar að endurspegla eitthvað sem gæti gerst.

Að búa til námsspil er frábært verkefni fyrir nemendur. Þannig geta eldri nemendur búið til spil fyrir þau yngri og fengið að kenna þeim þau. Sá sem þetta ritar man eftir áhugaverðu verkefni í skóla á Suðurnesjum þar sem nemendur sem voru að taka valnámskeið í samfélagsfræði bjuggu til lestrarkennsluspil handa nemendum með lestrarörðugleika og fengu að kenna þeim þau.

Í flestum skólum og frístundaheimilum eru til nokkur námspil og sums staðar hefur verið lögð áhersla á að eiga mörg spil. Margir leikskólar eiga líka safn af námspilum fyrir elstu börnin.

Verkefnið í þessum námsþætti felst í því að við prófum nokkur námspil saman laugardagstímamum [sjá hér].  Þarna er líka að finna leiðbeiningar fyrir þá sem ekki komast í tíma.

Sjá einnig hugmyndir að námspilum á Leikjavefinum – Leikjabankanum.

Svo má ekki gleyma þessum spilum: Spilareglur.is 


Aftur í yfirlit yfir námsþætti