Skólaárið 2017-2018 unnu kennarar í skólunum í Húnavatnssýslum að umbótum á námsmati, með áherslu á leiðsagnarmat. Skólarnir eru Blönduskóli á Blönduósi, Grunnskóli Húnaþings vestra á Hvammstanga, Húnavallaskóli í Húnavatnshreppi og Höfðaskóli á Skagaströnd. Ráðgjafi við verkefnið var Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands. Skýrslu um verkefnið er að finna hér.

Ákveðið var að halda verkefninu áfram haustið 2018 og verður Ingvar áfram með í ráðum. Ákveðið var að bjóða þeim kennurum sem áhuga hefði að tengja verkefnið við teymiskennslu. Verkefnið var sett af stað með dagskrá um leiðsagnarmat og teymiskennslu á Bifröst í Borgarfirði fimmtudaginn 16. ágúst. Á dagskrá voru tvö erindi og vinna í framhaldi af þeim. Nanna Kristín Christiansen, verkefnisstjóri hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, fjallaði um leiðsagnarmat, en Ingvar um teymiskennslu.

Nanna nefndi erindi sitt: Hvers vegna er leiðsagnarmat málið? Hún fjallaði um það hvers vegna  grunnskólar í Reykjavík eru að leggja aukna áherslu á leiðsagnamat/ leiðsagnarnám og gerði grein fyrir helstu einkennum aðferðafræðinnar sem skólarnir styðjast við, og kennd er við Shirley Clarke. Sjá um Shirley Clarke á þessari slóð: https://www.shirleyclarke-education.org/  Nanna hefur verið ráðgefandi um þetta verkefni með Eddu Gíslínu Kjartansdóttur og saman halda þær úti þessari vefsíðu:

Ingvar ræddi reynsluna af innleiðingu teymiskennslu í skólum hér á landi, en hann nefndi erindi sitt: Hvers vegna höfum við ekki séð að betur sjá augu en auga!?

Ingvar mun heimsækja skólana tvisvar á næsta skólaári og funda með þeim kennurum sem þess óska. Fyrri heimsóknin er ráðgerð 11.-14. september 2018 og hin seinni 4.-8. febrúar 2019.

Næsta vor er stefnt að uppskeruhátíð þar sem kennarar kynna þau verkefni sem þeir hafa verið að þróa.

 


25.9.2017/IS – síðast breytt 17.8.2018